Í dag, á alþjóðlega mannréttindadeginum, stóð Innflytjendaráð fyrir morgunverðarfundinum Innflytjendur og samfélagið þar sem flutt voru áhugaverð erindi um stöðu, þátttöku og réttindi innflytjenda á Íslandi.

Á fundinum afhenti Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, 28 styrki úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Í ár var lögð áhersla á verkefni sem efla íslenskukunnáttu, styrkja þátttöku innflytjenda í samfélaginu og byggja brýr milli ólíkra hópa.
Mímir símenntun hlaut styrk fyrir verkefnið „Íslenskukennsla og stefnumótun í Mýrdalshreppi – þarfagreining og þróun leiðarvísis“, sem miðar að því að greina tungumála- og fræðsluþarfir í sveitarfélaginu og móta skýra stefnu til framtíðar.

Við hjá Mími hlökkum til að vinna að þessu mikilvæga verkefni og leggja okkar af mörkum til íslenskukennslu og stefnumótunar í málaflokknum í Mýrdalshreppi.