Dagana 24.-26. ágúst fór fram hjá Mími undirbúnings- og kennslufræðinámskeið fyrir kennara sem munu kenna samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk og innflytjendur á vegum Vinnumálastofnunar.

Námskeiðið er hluti af verkefninu Landneminn. Samfélagsfræðsla sem Mímir vann að fyrir VMST en Landneminn er kennsluefni í samfélagsfræðslu sem er hýst hjá Vinnumálastofnun (www.landneminn.is). Námskeið í samfélagsfræðslu verða hluti af samræmdri móttöku flóttafólks þar sem kennsluefnið Landneminn. Samfélagsfræðsla verður nýtt.

Á kennslufræðinámskeiðinu hjá Mími fengu þátttakendur kynningu á kennsluefninu og vefnum www.landneminn.is og unnu verkefni tengd því auk þess sem hagaðilar kynntu þarfir markhópsins út frá þörfum stofnana (Rauði krossinn á Íslandi, Alþýðusamband Íslands, Miðja máls og læsis og flóttamannateymi Reykjavíkurborgar).

Á námskeiðinu fengu þátttakendur einnig innsýn í tæknilausnir í kennslu auk þess sem sálfræðingur fjallaði um áskoranir í kennslu og Hróbjartur Árnason lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fjallaði um fullorðna námsmenn.

Námskeiði mæltist mjög vel fyrir og voru þátttakendur ósparir við að hrósa námskeiðinu, sbr. umsagnir nemenda:

„Glæsilegt efni“

„Mig langar að þakka fyrir gagnlegt og afar fróðlegt námskeið“

„Kærar þakkir fyrir þetta. Kærar þakkir fyrir einstaklega vel heppnað námskeið. Vel gert“