Í maí munu um 630 manns þreyta íslenskupróf hjá Mími vegna umsókna um íslenskan ríkisborgararétt. Prófin fara fram í Mími en einnig á símenntunarstöðvum á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.

„Mímir iðar af lífi þessa dagana og er húsið fullt af fólki, það er fólkinu sem kemur í prófin, prófdómurum og starfsmönnum Mímis sem sjá um skipulag og framkvæmd verkefnisins. Hjá Mími hefur verið séð um framkvæmd prófanna samkvæmt samningi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu um árabil en þeim fjölgar ár frá ári sem taka prófið “ segir Sólborg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími en hún hefur yfirumsjón með fyrirlögn og framkvæmd prófanna hjá Mími.

Prófin eru haldin tvisvar á ári, að vori og að hausti. Heilmikið skipulag er í kringum prófin, sem reyna á hlustun, tal, lesskilning og ritun próftaka, og koma fjölmargir starfsmenn Mímis að verkefninu.