„Munið líka að menntun er skemmtun“, segir Hlín Rafnsdóttir meistaranemi í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands, sem sótti starfsnám sitt hjá Mími í vetur, um leið og hún hvetur fólk til að stíga skrefið og hefja nám á ný jafnvel eftir langt námshlé. Við fengum að heyra aðeins í Hlín varðandi starfsnámið. 

„Það er sjaldan sem við höfum tækifæri til að skyggnast á bak við tjöldin og spreyta okkur á öðrum vinnustöðum en okkar eigin. Nýlega fékk ég slíkt tækifæri hjá Mími þar sem ég tók vettvangsnám mitt sem er hluti af meistaranámi í
náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands,“ segir Hlín. 

„Það var mjög gaman og athyglisvert að kynnast starfsemi Mímis en fjölbreytt námsframboð hefur í för með sér að fjölbreyttur hópur fólks nýtir sér náms- og starfsráðgjöfina. Þar hittir ég einstaklinga sem vinna hörðum höndum að því
að bæta við sig menntun eða sem eru að velta fyrir sér að fara aftur í nám, sumir eftir langt hlé.“

„Við fáum stundum innsýn í persónulegt líf fólks og sjáum hversu viðfangsefni daglegs lífs geta verið ólík á milli manna sem svo getur haft áhrif á nám og störf. Saman tökumst við á við að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem kunna að
vera á vegi fólks við nám.“

„Þegar fyrstu skrefin eru stigin í nýrri atvinnugrein er mikilvægt að fá leiðsögn reynds fagmanns sem í mínu tilfelli var Kristín Erla (sem er algjör perla) en auk þess fékk ég að fylgjast með störfum annarra náms- og starfsráðgjafa
Mímis enda mikilvægt að sjá ólíkt fólk að störfum.“ 

„Ég er þakklát fyrir góðar móttökur hjá Mími, almennt virkar starfsfólk Mímis metnaðarfullt og vingjarnlegt og svo virðist sem starfsmannahópurinn sé samheldinn og leggi sig fram um að gera vinnudaginn eins ánægjulegan og kostur
er.“

„Ef þú ert að hugleiða nám hjá Mími hvet ég þig til að stíga skrefið, það er auðvelt að panta tíma hjá náms- og starfsráðgjöfum hvort sem þú kýst að mæta á staðinn eða fá rafræna þjónustu. Munið líka að menntun er skemmtun!,“ segir Hlín að lokum.