Það voru hlýjar móttökur hjá Hugarafli eins og endranær þegar þau tóku á móti starfsfólki Mímis. Heimsókn Mímis í Hugarafl var liður í að kynna Menntastoðir, raunfærnimat ásamt náms- og starfsráðgjöf fyrir þau sem falla undir mengi framhaldsfræðslunnar. Kristín Erla Þráinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi kynnti fyrir nemendum þau tækifæri sem geta legið í því að fá náms- og starfsráðgjöf áður en að frekari skref eru stigin til þess að átta sig á stöðunni. „Það er mikilvægt að finna út úr því hverju fólk hefur lokið og hvert það langar til að stefna. Stundum eru Menntastoðir rétta leiðin, í sumum tilfellum raunfærnimat og svo eru í enn öðrum tilfellum aðrar leiðir færar. Þetta er allt eitthvað sem að við, náms- og starfsráðgjafar hjá Mími getum aðstoðað með,“ segir Kristín Erla.

Ekki allir sem vita að ráðgjöfin er gjaldfrjáls

Aðspurð segir Kristín Erla að ráðgjöf náms- og starfsráðgjafa sé gjaldfrjáls að skilyrðum uppfylltum. „Þessi þjónusta er gjaldfrjáls fyrir þá sem falla undir markhóp framhaldsfræðslunnar. Það er Fræðslusjóður sem niðurgreiðir viðtalið hjá okkur og við hvetjum fólk til að nýta sér það boð,“ segir Kristín Erla.

 

Þau sem vilja kynna sér Menntastoðir geta smellt hér

Þau sem vilja panta viðtal í náms- og starfsráðgjöf smella hér.