Menntastoðir er vottuð námsbraut sem hefur notið vinsælda meðal fullorðinna um árabil en námið má meta til allt að 55 eininga í framhaldsskóla. Námið er kennt sem fjarnám, staðnám og blanda af stað- og fjarnámi. Námið hentar því vinnandi fólk vel. „Flestir sem sækja nám í Menntastoðum eru að hefja nám að nýju jafnvel eftir margra ára hlé frá námi en námsbrautin getur opnað leiðina til iðnnáms, stúdentsprófs eða inn í háskólabrýr og háskóla,“ segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis. „Það er góð ásókn í námið nú í haust,“ segir Sólveig Hildur og bendir jafnframt á að Fræðslusjóður niðurgreiði nemendagjöldin.

Kennslan, aðstaðan og eftirfylgnin okkar aðalsmerki

Námið og öll umgjörð kennslu tekur mið af því að margir eru að hefja vegferð í námi að nýju eftir hlé frá námi. Þá hafa kennararnir haldgóða reynslu af kennslu fullorðinna námsmanna. „Það hefur verið okkar aðalsmerki í gegn um tíðina að halda vel utan um nemendur í samstarfi við okkar frábæru kennara og náms- og starfsráðgjafa en sú ráðgjöf er ókeypis. Enn fremur er mikið lagt upp úr samvinnu og stuðningi nemenda sjálfra og þeir skapi sér sín eigin lærdómssamfélög. Slík samheldni er ekki síst mikilvæg til að ná árangri í námi,“ segir Sólveig Hildur.

Nám fyrir 18 ára og eldri

Flestir sem skrá sig í Menntastoðir eru á aldrinum 22 til 35 ára og eiga það sameiginlegt að hafa lokið litlu eða engu námi á framhaldsskólastigi. Elstu nemendurnir í Menntastoðum eru oft yfir fimmtugt en þrátt fyrir breitt aldursbil og ólíkan bakgrunn finnur fólk sig vel í hópunum og mikil samstaða myndast í þeim. Námið tekur á grunnfögum íslensku, stærðfræði, ensku, dönsku og upplýsingatækni auk þess sem lögð er áhersla á að nemendur læri námstækni, efli sjálfstraust sitt og lífsleikni. „Nemendur fá mikinn stuðning við námið enda oft stórt skref að setjast aftur á skólabekk eftir kannski langt hlé frá námi. Margir hafa jafnvel ákveðið með sjálfum sér að þeir eigi ekki erindi í bóklegt nám,“ segir Sólveig Hildur. Markmiðið sé ekki síst að koma nemendum í skilning um að allir geti lært og allir geti látið drauma sína rætast. „Við eigum ótal margar sögur um nemendur sem hafa komið sjálfum sér á óvart, tekist að klífa fjöll sem þeir töldu fyrirfram að væru ókleif. Með sigrunum kemur sjálfstraust til þess að takast á við enn stærri verkefni,“ segir Sólveig Hildur.

Ekki of seint að sækja um

Þessa dagana er starfsfólk Mímis í óða önn að taka á móti umsóknum um nám. „Við erum á fullu þessa dagana að taka á móti umsóknum og fer hver að verða síðastur til að sækja um. Glugginn er opinn  og því tilvalið að taka stökkið,“ segir Sólveig Hildur að lokum.

 

Nánari upplýsingar um Menntastoðirnar má finna hér.