Á Kvennafrídaginn, 24. október, fór fram málþingið „Nútíma kvennabarátta – staða kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði“, þar sem fjallað var um stöðu, réttindi og þátttöku kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði og í samfélaginu.
Alþýðusamband Íslands stóð að málþinginu og Vanessa Monika Isenmann, verkefnastjóri í íslensku hjá Mími, stýrði fundinum. Meðal gesta voru Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ. Einnig tóku þátt fulltrúar stéttarfélaga, ráðuneyta, fræðslumiðstöðva og innflytjendakonur af fjölbreyttum starfsvettvangi víðs vegar að af landinu.
Á dagskránni voru reynslusögur kvenna af erlendum uppruna, erindi hagsmunaaðila og pallborðsumræður þar sem rætt var meðal annars um launajafnrétti, viðurkenningu á menntun og hæfni, aðgengi að íslenskunámi og hvernig tryggja megi konum af erlendum uppruna jöfn tækifæri til starfsþróunar og virkrar þátttöku í samfélaginu.
Í umræðunum kom fram að konur af erlendum uppruna gegna lykilhlutverki í íslensku samfélagi. Þær mynda um 12% vinnumarkaðarins en mæta engu að síður kerfislægum hindrunum, lágum launum og ósýnileika. Þátttakendur voru sammála um að fjölbreytni sé mikilvæg auðlind og að jafnréttisbaráttan þurfi að ná til allra kvenna bæði innfæddra og aðfluttra.
Það var mikilvægt fyrir Mími að vera hluti af þessu samtali, enda eru íslenskunám og símenntun innflytjenda meðal meginstoða starfsins og í samræmi við markmið Mímis um að skapa tækifæri fyrir alla til náms og virkrar þátttöku í íslensku samfélagi.


