Mímir símenntun býður nú upp á námskeiðið Leikskólasmiðja og íslenska.

Námskeiðið er ætlað fyrir fólk sem langar til að vinna á leikskóla en vantar meiri færni í íslensku til þess að geta látið drauminn rætast.

Þær Juraté og Naira luku nýlega Leikskólasmiðju hjá Mími. Við hittum þær stöllur og spjölluðum um námskeiðið og upplifun þeirra af því. Að þeirra sögn var andinn og samvinnan í hópnum mjög góð. „Það var svo hvetjandi að vinna og læra saman, áhugaverðast á námskeiðinu var það sem ég lærði um list, leiki og söng til að örva skapandi hugsun barna“ sagði Juraté en á námskeiðinu er lögð mikil áhersla á skapandi starf þar sem er meðal annars kennt hvernig hægt er að nota myndlist, söng og útikennslu í starfi með börnum. En hvað var það sem var áhugaverðast að mati Nairu?

„Það sem mér líkaði best var að geta verið í meira en fimm klukkustundir í einu að hlusta og tala á íslensku, í langan tíma. Á námskeiðinu er líka tónlist og list. Kennarinn okkar Gulla er líka frábær og hún hefur kennt okkur mikið um íslenskar hefðir og auðvitað gefið okkur mikið af upplýsingum sem tengjast leikskólastarfi sem eru svo gagnlegar”.

Starfsþjálfun á leikskóla er einnig mikilvægur þáttur í námskeiðinu en þar fá nemendur að taka virkan þátt í daglegu starfi á leikskóla. Okkur lék forvitni á að vita hvernig þær Naira og Juraté upplifðu starfþjálfunina „það gekk vel í starfsþjálfuninni og ég gat notað það sem ég hafði lært á námskeiðinu í skapandi starfi með börnunum. Ég lærði líka mörg ný íslensk orð sem ég get notað áfram í samskiptum við börnin“ sagði Juraté glöð í bragði.

„Starfsþjálfunin gekk frábærlega“ bætti Naira við. „Það er auðvitað lærdómsferill, því þetta er fyrsta skiptið sem ég mæti íslenskumælandi fólki og það er margt að læra, sérstaklega venjurnar og að kynnast krökkunum. Ég lærđi mikiđ á stuttum tíma og hlakka til ađ fara aftur“.

Að lokum spurðum við þær stöllur hvort þær mæli með námskeiðinu?

„Já, ég mæli með þessu námskeiði fyrir aðra, það er mjög góður grunnur fyrir vinnu með börn í leikskólum eða grunnskólum og hefur undirbúið mig í að skilja og móta kennslu sem hvetur til skapandi hugsunar barnanna,“ sagði Juraté.

Þegar Naira var spurð hvort hún gæti einnig mælt með námskeiðinu var svarið stutt og laggott:

Auðvitað! Já, þúsund sinnum.

Frá námskeiðinu

 

Frá námskeiðinu

 

Frá útskrift

 

Frá útskrift