Kynning á nýrri kennsluaðferð í stærðfræði á framhaldsfræðslustigi

„Lesa, lesa, lesa, skilja, reikna!“ er lýsandi fyrir nýja kennsluaðferð í stærðfræði sem Mímir mun kynna á opnu fjarnámskeiði þann 14. október, kl. 13.00-16.00. Kennsluaðferðin hefur reynst nemendum í framhaldsfræðslunni vel til að komast yfir þann ótta sem þeir hafa gagnvart stærðfræðinni sem oftar en ekki hefur verið þeirra stærsta hindrun á skólagöngunni.

Á námskeiðinu verður farið yfir aðferðarfræði sem gengur út á það að nálgast stærðfræðina heildrænt þar sem byggt er á lestrarhæfni og lesskilningi nemenda. Aðferðarfræðin er skýrð í handbókinni; Að lesa stærðfræði - sjálfsstyrking fyrir nemendur í stærðfræði sem Mímir, í samstarfi við Hannes Hilmarsson og Fræðslusjóð, gáfu út fyrr á árinu.

Helstu hugtök og viðfangsefni stærðfræðinnar eru útskýrð með öðrum hætti en þeim sem flestir nemendur hafa kynnst á skólagöngu sinni. Áherslan er á að útskýra þá þætti stærðfræðinnar sem flestir nemendur eiga erfitt með; algebru, rúmfræði, prósentur, vexti, hnitakerfið, tölfræði, logra, vigra, mengi og rökfræði, með lestur og lesskilning að leiðarljósi, þannig að nemendur öðlist sjálfstraust til að takast á við stærðfræðina.

Það að nálgast stærðfræði sem lesfag er ný kennslufræðileg nálgun sem virðist leggjast afar vel í markhóp framhaldsfræðslunnar ef marka má tilraunakennslu í Menntastoðum hjá Mími árin 2019 til 2021.

Hönnuður aðferðarfræðinnar, Hannes Hilmarsson sem jafnframt er kennari á námskeiðinu, býr yfir áralangri reynslu af stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi og samtali við bæði nemendur og foreldra þeirra um hindranir í stærðfræðinámi. Hann kennir nú stærðfræði í Menntastoðum hjá Mími. Hannes hefur menntun í faginu, kennarapróf og embættispróf í félagsráðgjöf.

Á kennsluferli sínum varð Hannes snemma var við að nemendur skorti stuðning í stærðfræði, sérstaklega þegar skipt var um skólastig. Eftir að hafa kennt um hundrað nemendum í einkakennslu byrjaði hann að móta þessa aðferðarfræði og í leiðinni að færa hana yfir á blað og búa til einskonar handbók yfir aðferðarfræðina. Um tuttugu árum síðar, eftir umfangsmikla þróun aðferðarfræðinnar með nemendum og skrásetningu handbókarinnar, hófst samstarf Mímis og Hannesar um að gefa þessar leiðbeiningar út á rafrænu formi og halda kennslufræðinámskeiðið sem hér er auglýst með liðsstyrk Fræðslusjóðs.

Tímasetning: 14. október, kl. 13.00-16.00. Fjarnámskeið í gegnum Teams.

Námskeiðið er ókeypis og allir velkomnir.

Smelltu hér til að skrá þig