Í fyrsta sinn í sögu Mímis fer nú öll kennsla í íslensku fyrir útlendinga fram með stafrænum leiðum. Um er að ræða tímabundna ráðstöfun meðan á samkomubanni sóttvarnarlæknis stendur vegna COVID-19.

Það má segja að hinn nýi veruleiki sem við erum öll að læra að lifa í vegna samkomubannsins hafi ýtt okkur í Mími hressilega fram af brúninni með að nýta tæknina í allri þjónustu við okkar viðskiptavini. Íslenskukennsla fyrir útlendinga er þar engin undantekning. Að sjálfsögðu hefur ýmsum áskorunum verið mætt en þær hafa verið leystar með jákvæðu hugarfari, útsjónarsemi og umburðarlyndi kennara okkar og nemenda. Kennarar nota ýmiss leikjaforrit og önnur smáforrit í sinni kennslu sem fer fram í gegnum kennslukerfið Innu. Þá bjóða flestir kennarar upp á fjarfundi með sínum hópum.

Það er aðdáunarvert að fylgjast með því hve vel nemendum okkar tekst til á vegferð sinni inn í heim tækninnar. Teymi starfsfólks hjá Mími aðstoðar bæði kennara og nemendur við tækniinnleiðinguna, sem og styður við bakið á þeim nemendum sem þess óska. Nemendur eru auk þess hvattir til að nýta sér þjónustu náms- og starfsráðgjafa hjá Mími en panta má viðtal í síma 580 1800 eða gegnum netfangið radgjof@mimir.is