Kæru nemendur og samstarfsfólk
 
Senn líður að lokum þessa árs sem um margt hefur litast af heimsfaraldri COVID-19. Mér er efst í huga þakklæti til ykkar allra. Ég er stolt yfir því hvernig þið hafið tekist á við erfiðar og krefjandi aðstæður í skólastarfinu og í samfélaginu.
Tæplega 250 manns útskrifast nú á haustönn úr ýmis konar námi hjá Mími. Útskriftir hafa farið fram með óhefðbundnu sniði þetta árið sökum ástandsins í samfélaginu. Í stað einnar sameiginlegrar útskriftar hefur hver hópur fagnað áfanganum saman í sinni heimastofu. Við söknum þess vissulega að hafa ekki stóra útskriftarathöfn en þessar minni hafa ekki verið síður hátíðlegar.
 
Ég vil þakka ykkur fyrir það traust sem þið hafið sýnt Mími, starfsfólki og kennurum, með því að leyfa okkur að eiga hlutdeild í ykkar lífi. Það krefst hugrekkis að setjast á skólabekk aftur eftir langt hlé. Það sem við upplifum öll vegna heimsfaraldursins er mikilvægur lærdómur sem við tökum með okkur áfram. Þiðhafið sigrast á ýmsum hindrunum á leiðinni og sýnt dýrmætan eldmóð og þrautseigju. Það eru eiginleikar sem munu nýtast ykkur áfram í lífinu. Ég óska ykkur góðs gengis á nýju ári - hvort heldur sem leiðin liggur aftur til okkar í Mími eða í annan farveg - til móts við nýjar áskoranir í lífi og starfi. Ég vil sérstaklega þakka starfsfólki og þeim fjölmörgu kennurum í Mími fyrir það frábæra starf sem þeir vinna fyrir Mími. Það má aldrei gleymast hve mikil áhrif þið hafið á líf einstaklinga og þeirra framtíð. Ég vil einnig þakka samstarfsaðilum og öðrum sem leitað hefur verið til.
 
Því miður fara smittölur vegna COVID-19 hækkandi í samfélaginu. Betri tíð mun koma. Á meðan við bíðum skulum við áfram sinna mikilvægum smitvörnum, hlúa sérstaklega hvert að öðru og huga að því sem gefur lífinu gildi.
Í ljósi hraðrar útbreiðslu COVID-19 smita verður húsnæði Mímis að Höfðabakka 9 og Öldugötu 23 lokað í vikunni 20. til 24. desember og fer öll þjónusta fram í gegnum síma og net. Jólalokun verður svo í Mími frá og með 24. desember til 3. janúar.
 
Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsæls komandi árs.
 
Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis