Sl. föstudag fór fram jólahittingur kennara og starfsmanna Mímis. Talsvert er síðan að hægt var að halda hitting sem þennan svo það var kærkomið tækifæri fyrir starfsfólk og kennara að njóta saman notalegarar stundar. Nokkur atriði voru á dagskránni en Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis bauð alla velkomna og minnti á hve mikilvægir hlekkir kennarar væru nemendum á vegferð þeirra hjá Mími. "Það er alveg ljóst að þið sinnið afar mikilvægu hlutverki í lífi þess fólks sem til Mímis leitar. Eins og þið vitið best af reynslu ykkar af starfi með nemendum Mímis, þá þarf oft mikið til þess að setjast aftur á skólabekk, eftir áralangt hlé frá námi. Þá skiptir svo miklu máli að nemendur fái góðar móttökur og stuðning við námið. Mig langar því að þakka ykkur fyrir það frábæra starf sem þið vinnið fyrir Mími. Það má aldrei gleymast að þið eruð að hafa mikil áhrif á líf einstaklinga og þeirra framtíð. Þið eruð jú burðarás Mímis."
Þá tók Hildur Bettý Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins til máls og sagði frá því hvernig framhaldsfræðslan sé mikilvægur þáttur í menntakerfinu á Íslandi og styddi við atvinnulíf og einstaklinga í átt að aukinni menntun. Nemandi í Menntastoðum Mímis, Súsanna Ósk Sims tók til máls og sagði frá sinni reynslu af Menntastoðum hjá Mími, en Súsanna stefnir á að útskrifast af Menntastoðum eftir þessa önn. Milli atriða og á meðan gestir fengu sér ljúffengar veitingar léku Sigga Eyrún og Karl Olgeirs ljúfa tóna.