„Sannur jólaandi felur fyrst og fremst í sér kærleika, hjálpsemi og falleg orð til okkar sjálfs og annarra,“ sagði Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri Mímis í ávarpi sínu í jólaboði kennara, matsaðila í raunfærnimati og starfsfólks Mímis sem haldið var í Mími í dag.

Sólveig Hildur gerði vægi trausts og virðingar að umtalsefni í ávarpinu þar sem hún þakkaði kennurum og matsaðilum fyrir það frábæra starf sem þeir vinna fyrir Mími. „Á þriðja þúsund nemendur sækja til Mímis á hverju ári. Það er ekki af ástæðulausu. Mími hefur tekist að byggja upp jákvætt orðspor. Það er ekki gert á einum degi heldur er það afrakstur mikillar vinnu með aðkomu margra aðila í fjöldamörg ár,“ sagði Sólveig Hildur. 

„Það má aldrei gleymast hve mikil áhrif þið hafið á líf einstaklinga og þeirra framtíð. Nemendur treysta okkur fyrir því að eiga hlutdeild í lífi þeirra. Förum því áfram vel með það traust sem við höfum og berum virðingu fyrir því,” sagði Sólveig Hildur og þakkaði viðstöddum fyrir þeirra framlag til nemenda Mímis. 

Auður Guðmundsdóttir, fyrrum nemandi Mímis, sagði frá upplifun sinni af Mími og varð tíðrætt um þá miklu hvatningu og þolinmæði sem kennarar sýndu henni og samnemendum hennar. Hún hafi hvorki ætlað sér í Grunnmenntaskólann, Menntastoðir né frumgreinadeild Keilis eða Háskóla Íslands þegar hún tók ákvörðun um að hefja nám að nýju eftir hlé. Staðreyndin væri hins vegar sú að nú væri hún við það að útskrifast með BA í félagsráðgjöf úr Háskóla Íslands!  

„Draumar geta ræst“, sagði Auður og þakkaði kennurum og starfsfólki fyrir þeirra hlutdeild í hennar lífi. 

Starfsfólk Mímis þakkar bæði kennurum, matsaðilum, fyrrum og núverandi nemendum samstarfið á árinu og undanfarin ár. Við erum svo sannarlega stolt af okkar fólki.