Um þessar mundir þreyta um 370 manns íslenskupróf hjá Mími í tengslum við umsókn um íslenskan ríkisborgararétt. Starfsmenn Mímis eru nú í óða önn að prófa einstaklinga með tilliti til þeirra krafna sem Menntamálastofnun setur fram en Mímir sér um framkvæmd prófanna fyrir stofnunina. Heilmikið skipulag er í kringum prófin og koma fjölmargir starfsmenn Mímis að verkefninu. „Mímir iðar af lífi þessa dagana. Það er oft mikið að gera kringum þessa fyrirlögn prófa sem fer eðli málsins samkvæmt fram eftir forskrift frá Menntamálastofnun. Mímir sér um framkvæmdina prófanna bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi en þar erum við í samstarfi við aðrar símenntunarmiðstöðvar. Starfsmenn eru orðnir þaulvanir að sinna þessu verkefni enda hefur Mímir séð um framkvæmd prófanna í þónokkur ár. Þeim fjölgar sífellt sem vilja þreyta prófin en því miður komast ekki allir að sem vilja þar sem takmarkaður fjöldi prófa er í boði hverju sinni,“ segir Sólveg Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis. Prófin eru haldin tvisvar á ári, að vori og að hausti. Í prófunum er reynt á tal, hlustunarskilning, ritun og lesskilning.