Nú standa yfir íslenskupróf fyrir væntanlega umsækjendur um íslenskan ríkisborgararétt í Mími. Metskráning er í prófin en yfir 700 manns munu þreyta íslenskupróf í nóvember. Í prófunum eru metnir allir færniþættir í tungumálinu, það er hlustunarskilningur, lestrarskilningur, ritun og færni í að tala íslensku en það er á stigi A.2 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu semur prófin og sendir út niðurstöður en framkvæmd og utan umhald prófanna er hjá Mími. Að auki eru haldin próf hjá símenntunarstöðvunum Símey, Austurbrú og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þetta er stórt verkefni og iðar húsnæði Mímis af lífi allan daginn af fólki að reyna sitt besta, annað hvort í námi eða að taka próf. Gott skipulag og rólegt andrúmsloft einkennir prófatímabilið hjá Mími og við styðjum alla okkar próftaka eins vel og kostur er. Prófin eru haldin tvisvar á ári, að hausti og á vorin.
Nánari upplýsingar um skilyrði fyrir ríkisborgararétti má finna https://island.is/rafraen-umsokn-um-rikisborgararett/skilyrdi og upplýsingar um íslenskuprófið á https://island.is/islenskuprof-fyrir-rikisborgararett/upplysingar-um-profid


