Hjá Mími er komin í hóp kennara ung kona, Selin (Zahra) Mesbah, sem kennir íslensku fyrir persnesku- og farsímælandi fólk. Námskeiðið sem hún kennir er íslenska á stigi 1 þar sem áhersla er á grunnorðaforða daglegs máls, skilning og talþjálfun. Nemendur fá einnig þjálfun í að lesa og skrifa latneska letrið og æfa sig að nota rafrænar lausnir sem nýtast í daglegu lífi. Stór hluti nemendahópsins er flóttafólk frá Íran og Afganistan sem eru að leggja sig fram um að læra íslensku og fóta sig í nýju lífi á Íslandi.

Selin kom sjálf til landsins sem flóttamaður frá Afganistan árið 2012. Hún hefur starfað sem túlkur og menningarmiðlari og hefur nýtt sína reynslu til að auka skilning og stuðla að betri aðlögun flóttafólks að íslensku samfélagi.

Eða eins og Selin, sem reyndar er alltaf kölluð Zahra, segir sjálf:

„Vegna eigin reynslu af því að vera flóttamaður hef ég góða innsýn í þær áskoranir sem flóttafólk og hælisleitendur standa frammi fyrir, og ég legg metnað minn í að styðja þau í þeirra vegferð. Markmið mitt er að stuðla að jákvæðum breytingum og vera öðrum fyrirmynd með vinnu minni og þátttöku í samfélagsverkefnum. Ég trúi á mikilvægi fjölbreytileika og samstöðu og vinn stöðugt að því að byggja upp betra og réttlátara samfélag fyrir alla.“

Zahra, er flott fyrirmynd fyrir allt flóttafólk og sérstaklega ungar konur. Við hjá Mími fögnum því að fá hana í kennarahópinn og að bjóða aftur upp á sérhæft íslenskunámskeið fyrir persneskumælandi fólk.