Mímir hefur síðastliðin tvö ár farið í gegnum greiningarvinnu um endurskoðun á íslenskukennslu fyrir útlendinga. Hluti af þessari vinnu var vinnufundur með fulltrúum hagsmunaðila (meðal annars úr hópi nemenda, kennara, samstarfsaðila og fyrirtækja) og innri skoðun í starfsemi Mímis. Niðurstöður kalla á áherslubreytingar sem innleiddar verða nú í haust. Markmiðið er ávallt að kennslan endurspegli þarfir nemenda og hæfniviðmið séu í samræmi við Evrópska tungumálarammann.

Enn meiri áhersla verður lögð á fjölbreytta kennsluhætti og talþjálfun á öllum námskeiðunum

„Við höfum hlustað á ákall eftir meira og fjölbreyttara úrvali námskeiða og erum stolt af því að geta boðið upp á helgarnámskeið, hraðnámskeið, hægferð, bókaklúbb, starfstengd íslenskunámskeið og íslensku í tengslum
við atvinnulífið svo eitthvað sé nefnt,“ segir Joanna Dominiczak, fagstjóri íslenskunáms og erlends samstarfs hjá Mími. „Auk þessa er unnið að því að bæta stoðþjónustu og kennsluráðgjöf fyrir kennara.“

Mímir hefur áralanga reynslu af íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þá hafa námskeið verið haldin í samstarfi við fyrirtæki fyrir erlent starfsfólk með góðum árangri síðan árið 2003. Námskeiðin byggja á viðurkenndum kennsluaðferðum sem hvetja til aukinna samskipta á íslensku.

Mímir hefur hlotið viðurkenningu á fræðslustarfseminni frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hefur vottunina EQM+ (European Quality Mark) sem viðurkenndur fræðsluaðili.