Íslenska er mitt hjartans mál. Hún er líka mitt annað tungumál. Íslenskunám, eins og annað tungumálanám, er ferli og einskorðast ekki bara við tiltekið námskeið, kennslubók, skóla eða tímabil. Það er samvinna margra hlutaðeigandi. Nemandans sem hefur markmið, áhuga, tíma og orku til að læra íslensku. Kennarans sem sýnir námstækni, hvetur til náms og afhendir tól og tæki til að læra íslensku. Nágrannans sem segir góðan daginn og aðstoðar með léttu spjalli á íslensku. Þjónustufulltrúans sem skiptir ekki strax yfir í ensku þegar heyrist hreimur eða skilur ekki allt. Vinnuveitandans sem býr til hvetjandi umhverfi til að læra og nota íslensku. Samfélagsins sem sýnir þolinmæði. Það tekur tíma að læra íslensku. Hún þarf ekki að vera fullkomin, íslenska er alls konar. Stjórnvalda sem setja inn fjármagn í málaflokkinn til að búa til betri ramma, námsefni, að þjálfa og skapa betra vinnuumhverfi fyrir íslenskukennara (langflestir ef ekki allir eru verktakar með ekkert atvinnuöryggi), lækka námskeiðsverð og fækka í hópum. Ég segi þetta sem íslenskumálnemi til 18 ára, því ég er í engu hætt að læra.

Ég er líka íslenskukennari. Í hópunum sem læra íslensku er alls konar fólk, sumt með áfallasögu, slæma reynslu úr skólakerfinu, langt hlé frá námi, meðalfólk og svo má áfram telja. Nemendur í íslensku sem öðru máli eru ekki allir tungumálaséní, með háskólamenntun og eiga auðvelt með að læra. Í kennslu þarf að taka tillit til allra og það er engin ein leið sem hentar öllum. Ég er líka verkefnastjóri hjá Mími símenntun og því þekki ég málaflokkinn frá mörgum hliðum.

Þótt sumt megi betur fara megum við ekki gleyma því sem er vel gert og á hrós skilið. Það eru íslensk fyrirtæki sem hafa metnað í að styrkja starfsmenn sína til íslenskunáms og gera það á vinnutíma. Eitt dæmi um slíkt er Landspítali - háskólasjúkrahús sem hefur í mörg ár stutt starfsfólkið sitt í gegnum íslenskuskóla LSH og Mímis. Þarna fer fram metnaðarfullt starf þar sem nemendur fá gæðakennslu í starfstengdri íslensku sem þeir nota svo í vinnunni með stuðningi yfirmanna og samstarfsfólks. Ég sé meðal annars um að þróa og skipuleggja nám fyrir fyrirtæki. Ég er í samskiptum við mörg fyrirtæki sem vilja gera vel við starfsfólk sitt, fjárfesta í því með að kaupa almenn eða starfstengd íslenskunámskeið. Við vinnum í sameiningu í að finna lausnir og sníða námið að þörfum starfsfólksins og vinnustaðarins. Við bjóðum upp á sveigjanlegt nám, staðkennslu, fjarnám og blandað nám eftir því sem hentar hverju sinni. Þessi þróun er komin til að vera og við eigum að fagna því.

Mímir er í takt við tímann, málið og það sem mestu skiptir fólkið sem þarf að læra íslenskuna. Það er mikilvægt að það finni að það sé velkomið, kennslan sé góð og að allir gangi út með fleiri orð og tækifæri í íslensku samfélagi á íslensku.

Joanna Dominiczak, verkefnastjóri hjá Mími.