Í byrjun haustannar fengum við í Mími til okkar sérfræðinga sem starfa innan evrópsks sérfræðinets sem kallast “Tungumál fyrir vinnu”(Language for Work) til að vera með tveggja daga vinnustofu fyrir íslenskukennara og verkefnastjóra í íslenskuteymi Mímis. Þetta net er á vegum Miðstöðvar evrópskra tungumála í Graz (European Centre for Modern Languages-ECML, https://www.ecml.at/). Námskeiðið var liður í eflingu stoðþjónustu fyrir íslenskukennara okkar.
Á vinnustofunni lærðum við um starfstengda tungumálakennslu, beinan og óbeinan tungumálastuðning, kröfu- og þarfagreiningu á vinnustöðum, árangursríkar kennsluaðferðir í kennslu starfstengds orðaforða, aðferðir í tungumálamarkþjálfun, samskipti á vinnustað og tungumálaumboðsmenn.
Þjálfararnir voru Matilde Grünhage-Monetti og Alexander Braddell sem eru helstu sérfræðingar í Evrópu á sviði starfstengdrar tungumálakennslu.