Á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, veitti forseti Íslands félaginu Ísbrú viðurkenningu fyrir gott starf. Ísbrú er félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál á öllum skólastigum. Í hópi félagsmanna Ísbrúar og í hópi gesta á Bessastöðum í gær var fjöldi kennara sem kenna íslensku hjá Mími auk verkefnastjóra hjá Mími.
Svo vitnað sé í orð forsetans:
„Íslenska er frábært og fallegt tungumál og undir okkur sjálfum komið að efla það og styrkja enn frekar. …. Svo verðum að tryggja að fólk sem hingað flyst að utan geti lært málið og ekki síður börn þeirra sem fæðast hér og verða væntanlega tvítyngd. Við ættum öll að vera umburðarlynd og víðsýn, átta okkur á ólíkum hreim og skilja að það tekur tíma að ná tökum á öllum þeim ástkæru og ylhýru orðum sem við notum í dagsins önn. Íslenskt samfélag hefur auðvitað gerbreyst frá því að Jónas Hallgrímsson var og hét. Við höfum að mestu gengið til góðs, götuna fram eftir veg. Nú mun um fimmtungur íbúa landsins vera með rætur í útlöndum. Því er það þjóðarnauðsyn að sá hluti samfélagsins megi læra íslensku eftir bestu getu og vilja.“
Kennarar og starfsfólk Mímis þakka viðurkenninguna og mun halda áfram að efla og þróa kennslu í íslensku sem öðru máli af alúð og krafti.