Í nýrri úttekt OECD á stöðu innflytjenda hér á landi er því sérstaklega beint til stjórnvalda að efla íslenskukennslu til að stuðla betur að þátttöku innflytjenda í samfélaginu. Um 18 prósent innflytjenda telja sig hafa góða færni í íslensku sem er afar lágt hlutfall miðað við tungumálakunnáttu innflytjenda í öðrum OECD-ríkjum. Þá eru opinber fjárframlög til íslenskukennslu mun lægri hér á landi en til móðurmálskennslu í öðrum norrænum ríkjum.
„Eftirspurnin hefur verið gríðarleg og hún eykst ár frá ári. Á síðasta ári voru um tvö þúsund manns sem sóttu nám hjá okkur. Ekki bara einstaklingar heldur eru vinnustaðir líka að sækja á. Þannig að það má segja að það sé vitundarvakning í samfélaginu sem er mjög ánægjulegt,“ segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, í kvöldfréttum sjónvarps á RÚV, föstudaginn 6. september síðastliðinn.
Samfélagslegt verkefni
Sólveig fagnar þeirri stefnumótunarvinnu sem nú er í gangi hjá stjórnvöldum varðandi innflytjendur og vonar að það skili sér í auknum fjárframlögum frá ríkinu.
„Það er hægt að gera betur. Það er margt gott gert. Hins vegar sem dæmi má nefna að hjá Mími er úthlutað fjármagn til íslenskukennslunnar að verða uppurið núna í september. Þannig að því miður verða einstaklingar og vinnustaðir jafnvel, komi ekki til fjármagns, að bíða fram í janúar. Þannig að þörfin er mikil. Það er vilji til staðar og við verðum að nýta hann,“ segir Sólveig.
Sólveig hvatti Íslendinga til að tala íslensku við þá sem vilja læra tungumálið í stað þess að skipta strax yfir í ensku. Samfélagið allt hafi hlutverki að gegna við að gera aðfluttum, með annað móðurmál en íslensku, kleift að öðlast færni í íslensku.