Vanessa Monika Isenmann, verkefnastjóri hjá Mími, var í viðtali í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun þar sem fjallað var um ráðstefnuna: Við vinnum með íslensku, sem haldin verður fimmtudaginn, 29. febrúar næstkomandi. Þegar þátttaka innflytjenda á vinnumarkaði eykst til muna eins og gerst hefur undanfarin misseri þá verður aukin þörf á markvissari íslenskukennslu fyrir fullorðna einstaklinga. Samvinna fræðslu- og hagaðila er lykilatriði í að tryggja, með hvað bestum hætti, gæði í kennslu og aðgengi að námi fyrir alla.

„Við viljum fá upplýst lærdómssamfélag þar sem eru möguleikar fyrir innflytjendur að læra og nota tungumálið. Tungumál er lykill að samfélaginu og okkur langar að leggja áherslu á samábyrgð alls samfélagsins. Þetta er sameiginlegt verkefni stjórnvalda, þjónustuveitenda, atvinnurekenda, fræðsluaðila og innflytjenda. Við berum öll ábyrgð á að geta veitt kennslu og að innflytjendur fái tækifæri til að læra tungumálið,“ sagði Vanessa meðal annars í viðtalinu.

Mímir heldur ráðstefnuna í samstarfi við Alþýðusamband Íslands (ASÍ). Markmið ráðstefnunnar er að fá sem flesta aðila sem tengjast málefninu við sama borð til að ræða málin, varpa ljósi á stöðuna og vinna sameiginlega að lausnum þannig að öll fái tækifæri til að læra tungumálið, óháð stöðu og stétt.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér og enn er möguleiki á að skrá sig á ráðstefnuna sem við mælum að sjálfsögðu eindregið með.

Skrá á ráðstefnu