Raunfærnimat er orð sem við heyrum meira og meira af í dag. Það er þó ekki á allra vitorði hvað felst í raunfærnimati og hverjir ættu að íhuga að fara í raunfærnimat. Innandyra hjá Mími starfa náms- og starfsráðgjafar sem þekkja vel til raunfærnimats og hvað það er.

Raunfærnimat er leið til þess að meta færni og þekkingu sem afla má utan skólastofunnar t.d. á vinnumarkaði. Þeir sem eru gjaldgengir í raunfærnimat þurfa að vera orðnir 23 ára og með staðfesta þriggja ára starfsreynslu í viðkomandi grein. Metið er til eininga, en raunfærnimatið getur mögulega stytt nám og verið nægjanleg hvatning til þess að ljúka námi.

Hvernig fer raunfærnimat fram?

Þú pantar tíma hjá náms- og starfsráðgjafa sem leggur fyrir þig skimunarlista. Þá veitir náms- og starfsráðgjafi þér leiðbeiningar við að skrá þekkingu, reynslu og færni sem þú býrð yfir. Þá gerir þú sjálfsmat með aðstoð náms- og starfsráðgjafa. Að þessu loknu fara fram matsviðtöl þar sem farið er yfir viðkomandi færni og hún metin til móts við námsbraut og/starf. Þegar niðurstöður liggja fyrir fer náms- og starfsráðgjafi yfir niðurstöðurnar með þér og veitir ráðgjöf um hvaða möguleika niðurstaðan gefur.

Dæmi um hvernig raunfærnimat hefur nýst?

Sem tilbúið dæmi um hvernig raunfærnimat getur nýst getum við sagt að Jóhönnu langi til að hefja nám að nýju. Hún hætti eftir stutta skólagöngu í framhaldsskóla og fór að vinna. Jóhanna byrjaði á leikskóla sem almennur starfsmaður en er nú deildarstjóri yfir yngsta stigi. Hún ákvað að slá til og panta tíma hjá náms- og starfsráðgjafa Mímis. Í stuttu máli fékk Jóhanna þær framhaldsskólaeiningar metnar sem hún hafði lokið. Vegna þess að hún hafði aflað sér góðrar reynslu í starfinu gat hún, eftir raunfærnimat hjá Mími fengið þá reynslu metna til eininga. Í ljós kom, þegar allt var talið, að Jóhanna átti fáar einingar eftir til stúdentsprófs. Í eftirfylgniviðtali hjá ráðgjafanum ákvað Jóhanna að fara í leikskólaliðanám hjá Mími. Að því loknu ætlar hún að fara í leikskólakennaranám í Háskóla Íslands. Að auki ætlar hún að ná sér í þær einingar sem hún á eftir til stúdentsprófs og fékk aðstoð náms- og starfsráðgjafa hvar og hvernig hún gæti náð þeim markmiðum.

Rétt er að benda á að raunfærnimat má taka í hinum ýmsu greinum. Best er að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa og meta kosti sína í ráðgjafarviðtali sem bóka má hér.  Athugið að viðtal við náms- og starfsráðgjafa er þér að kostnaðarlausu.

Viltu vita meira um raunfærnimat? Smelltu þá hér.