Kæru nemendur og samstarfsfólk
Senn líður að lokum ársins 2022 sem reyndist starfsemi Mímis farsælt. Þegar horft er yfir árið er mér þakklæti efst í huga.
Um 1600 nemendur útskrifuðust í lok haustannar frá hinum ýmsu námsbrautum og námskeiðum í Mími. Til hamingju öll sömul með árangurinn og áfangann - og kærar þakkir fyrir það traust sem þið hafið sýnt Mími, starfsfólki og kennurum, með því að leyfa okkur að eiga hlutdeild í ykkar lífi. Nú taka við nýjar áskoranir og verkefni sem þið öll takist á við með aukna hæfni og þekkingu í farteskinu.
Fyrir hönd Mímis, óska ég ykkur góðs gengis - hvort heldur sem leiðin liggur til frekara náms eða inn í annan farveg - til móts við nýjar áskoranir í lífi og starfi.
Orð eins og þrautseigja, hugrekki og eldmóður voru einkennandi fyrir árið sem er að líða. Það krefst til dæmis hugrekkis að setjast á skólabekk ekki síst eftir langt hlé frá námi og það krefst þrautseigju að ástunda nám. Hjartað í starfsemi Mímis er svo eldmóður nemenda, kennara og starfsfólks.
Eins og áður er mikill hugur í Mímisfólki sem horfir til framtíðar björtum augum. Góðan árangur Mímis er fyrst og fremst öflugu og metnaðarfullu starfsfólki að þakka, sem og okkar traustu kennurum og nemendum. Fyrir hönd Mímis þakka ég viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir framúrskarandi samvinnu á árinu og stjórn, starfsfólki og kennurum fyrir öflugt og metnaðarfullt starf. Saman erum við hreyfiafl til góðra verka.
Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári sem endranær.
Sólveig Hildur Björnsdóttir,
Framkvæmdastjóri Mímis
Útskrift úr Menntastoðum í lok haustannar 2022.