Kæru nemendur, kennarar og samstarfsfólk

Senn líður að lokum 20 ára afmælisárs Mímis. Þegar horft er yfir árið er mér efst í huga þakklæti. Þakklæti fyrir allt fólkið sem hefur verið með okkur í gegnum árin og vaxið og dafnað í námi og starfi.

Á árinu 2023 útskrifuðust yfir 2100 nemendur frá hinum ýmsu námsbrautum og námskeiðum í Mími. Stór hluti þeirra stundaði nám í íslensku sem öðru máli og menntastoðum. Ég óska þeim öllum innilega til hamingju með áfangann. Um leið vil ég þakka traustið sem nemendur hafa sýnt Mími, starfsfólki og kennurum með því að leyfa okkur að eiga hlutdeild í lífi þeirra. Framtíðin er þeirra og það verður gaman að fylgjast með þeim.

Á þeim 20 árum sem Mímir hefur starfað í núverandi mynd hefur fjöldinn allur af fólki lagt leið sína til okkar. Það er einstaklega gjöfult og ánægjulegt að sjá fólk hefja nám af eldmóði. Það á sér í lagi við þau sem eru að setjast á skólabekk eftir langt hlé en einnig þau sem leggja það á sig að læra tungumálið okkar til að koma sér betur fyrir hér á landi og verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Það krefst svo sannarlega hugrekkis og þrautseigju.

Við hjá Mími horfum björtum augum til framtíðar. Það er öflugu og metnaðarfullu starfsfólki okkar að þakka hversu vel starfið gengur. Ég veit það fyrir víst að nemendur finna að starfsfólk og kennarar okkar sem og ráðgjafar leggja sig verulega fram við að mennta og leiðbeina fólki fram á veginn.

Fyrir hönd Mímis þakka ég viðskiptavinum og samstarfsaðilum fyrir framúrskarandi samvinnu á árinu og stjórn, starfsfólki og kennurum fyrir öflugt og metnaðarfullt starf. Það er ómetanlegt að hafa ykkur með okkur í Mími.

Ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og farsældar á nýju ári og hlakka til að hitta ykkur á nýja árinu.

Með hátíðarkveðju,

Sólveig Hildur Björnsdóttir,

framkvæmdastjóri Mímis

Starfsfólk á 20 ára afmæli Mímis

 

Útskrift úr Menntastoðum í desember

 

Útskrift úr fagnámskeiði fyrir starfsmenn heilbrigðis- og félagsþjónustu