Mynd fengin að láni af heimasíðu Starfsafls
Mynd fengin að láni af heimasíðu Starfsafls

Vinna við hæfnigreiningu starfs dyravarða hófst í síðustu viku hjá Mími en þá kom stýrihópur verkefnisins saman til að leggja línur. Verkefnið er að fullu fjármagnað af Starfsafli og Eflingu stéttarfélagi en framkvæmdin sjálf er í höndum Mímis. Hæfnigreining starfs dyravarða er ein af sex hæfnigreiningum sem Mímir hefur tekið að sér að framkvæma í samvinnu við Starfsafl og Eflingu.  

Nýlega tók Mímir upp samstarf við Reykjavíkurborg og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og rekstur námskeiða fyrir dyraverði sem veitir þeim samþykki lögreglu til að starfa við dyravörslu. Hæfnigreining starfsins gefur enn gleggri mynd af starfi dyravarða og mun námskeiðið hjá Mími taka mið af því.  

Framlag þeirra sem taka þátt í vinnu stýrihópsins skiptir sköpum fyrir verkefnið. Stýrihópurinn hefur meðal annars það hlutverk að leggja línur og vera ráðgefandi varðandi hæfnigreiningu starfsins sem framundan er en stýrihópinn mynda, m.a. fræðslustjóri Eflingar og framkvæmdastjóri Starfsafls auk fulltrúa frá lögreglu og skemmtistöðum. Þá munu starfandi dyraverðir taka þátt í greiningarvinnunni sem fer fram á næstu vikum. 

Hæfnigreining starfa felst í að kortleggja og skilgreina þá hæfni sem mikilvægt er að starfsmaður búi yfir til að árangur náist í starfi. Þess utan geta hæfnigreiningar starfa nýst á margvíslegan máta, s.s:

  • Grunnur fyrir gerð námsefnis – og námsbrauta.
  • Við skipulag þjálfunar og gerð fræðsluáætlana.
  • Við gerð starfsþróunarstefnu og starfsþróunaráætlana.
  • Við starfsmannaval og ráðningar.
  • Við gerð starfslýsinga.
  • Sem viðmið um frammistöðu í starfi sem nota má í frammistöðumati.