Styrkur til að efla og bæta íslenskunám fyrir starfsfólk leikskóla Hafnarfjarðar

Hafnarfjarðarbær, ásamt Mími og Íslenskuþorpi HÍ, hafa fengið styrk frá barna- og menntamálaráðuneytinu til að efla íslenskukunnáttu, sjálfstraust og starfsþróun starfsfólks leikskóla í Hafnarfirði. Verkefnið felur í sér gerð sérhæfðs námsefnis, kennslu á starfstengdum íslenskunámskeiðum, þjálfun tungumálamentora á leikskólum auk fræðslu og stuðning við starfsfólk og stjórnendur. Áhersla er á að innleiða heildstætt íslenskunám á vinnustað þar sem sérhæft starfstengt nám helst í hendur við innleiðingu á mentorakerfi til að efla íslenskunotkun í öllu starfi leikskólanna.

Mikilvægur þáttur í verkefninu er inngilding og starfsþróun þátttakenda. Með skipulögðu íslenskunámi á vinnustað öðlast starfsmenn bæði tungumálafærni og starfslega hæfni sem styrkir stöðu þeirra innan leikskólans. Starfsmenn fá tækifæri til að taka næstu skref í námi eða starfi á sviði uppeldis og menntunar, og þannig mun verkefnið vonandi stuðla að auknu jafnræði, fagmennsku og starfsánægju.

Verkefnið er unnið í samstarfi við sérfræðinga hjá Mími-símenntun og Íslenskuþorpi HÍ og byggir á reynslu, þekkingu og kennslufræðilegri nálgun og aðferðum Mímis og Íslenskuþorpsins, sem hafa sýnt fram á góðan árangur í starfstengdu tungumálanámi. 

Verkefnið Gefum íslensku tíma er spennandi og þarft verkefni þar sem markmiðið er að styrkja íslenskt málumhverfi í leikskólum og þar sem horft er til þess að tungumálanám er ekki eingöngu á ábyrgð einstaklingsins heldur einnig samfélagsins sem heild.