Á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, sem fram fór í gær 13. nóvember á Grand hótel, voru veitt verðlaun fyrir fyrirmyndarnemanda ársins 2025 í námi fullorðinna. Í ár hlaut nemandi frá Mími þessa verðskulduðu viðurkenningu: Honeyly Abrequino Limbaga.
Við hjá Mími erum afar stolt af framlagi hennar og frábærum árangri. Honeyly hefur sýnt framúrskarandi metnað, jákvætt viðmót og mikinn dugnað í námi sínu. Hún sýnir með árangri sínum hversu mikilvægt það er að skapa aðgengi, stuðning og raunhæf tækifæri fyrir fólk sem er að byggja upp færni og framtíð á Íslandi.
Við óskum Honeyly innilega til hamingju með titilinn Fyrirmyndarnemandi ársins og hlökkum til að fylgjast með áframhaldandi árangri hennar.
Kraftmikill ársfundur FA um íslenskuna okkar
Starfsfólk Mímis tók þátt í ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem haldinn var 13. nóvember á Grand hótel en fundurinn er samstarfsvettvangur í fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði. Í ár bar fundurinn yfirskriftina „Tengjum saman – fjölbreytileiki, lærdómur, vöxtur“ og beindi sjónum að mikilvægi íslenskukennslu, tungumálastuðnings og eflingu íslenskunnar í samfélaginu.
Á fundinum var fjallað um ört vaxandi þátttöku innflytjenda í námi, hlutverk tungumálastuðnings á vinnustöðum og þær áskoranir og tækifæri sem felast í fjölmenningarlegu samfélagi. Sérfræðingar, stjórnendur og hagsmunaaðilar deildu reynslu og lausnum, allt frá stefnumótun og vinnustaðamenningu til kennsluhátta og framtíðarsýnar í framhaldsfræðslunni.
Þær áherslur sem fram komu á ársfundinum samræmast vel þeirri stefnu sem Mímir hefur markað í íslenskukennslu: að mannleg kennsla, tengsl og gagnvirk samskipti skipti mestu máli í tungumálanámi. Fjallað var um mikilvægi tungumálastuðnings á vinnustöðum, aðgengi að námi og gæði kennslu – lykilþætti sem rannsóknir sýna að hafa mest áhrif á árangur nemenda. Þar eru Mímir og samstarfsaðilar þegar í fararbroddi, meðal annars í starfstengdri íslenskukennslu, eflingu tungumálafærni á vinnustöðum og í nýsköpun en í gegnum alþjóðleg samstarfsverkefni.
Á fundinum komu fram áherslur sem undirstrika mikilvægi þess að samstarf menntastofnana, atvinnulífs og hins opinbera sé sterkt og markvisst þegar kemur að íslenskunámi og samþættingu í samfélaginu. Mímir heldur áfram að leggja sitt af mörkum með fjölbreyttu námsframboði, faglegum stuðningi og þjónustu sem mætir fjölbreyttum þörfum íbúa landsins.
Hér má sjá myndir frá ársfundinum


