Fulltrúar frá Mími sóttu Haustfund Símenntar – samtaka símenntunarmiðstöðva á Íslandi sem fram fór dagana 19. og 20. september síðastliðinn í Vestmannaeyjum.
Erindi þessa haustfundar voru fjölbreytt og tengdust meðal annars notkun stafrænna miðla við að ná til markhópa, sem og inngildingu innflytjenda í íslenskt samfélag með tilliti til framhaldsfræðslunnar.
Hildur Betty Kristjánsdóttir og Fjóla María Lárusdóttir frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) kynntu helstu niðurstöður verkefnisins Raddir fólks með erlendan bakgrunn – inngilding í nám, starf og samfélag sem FA og Norrænt tengslanet um nám fullorðinna (NVL) stýra í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið. Verkefnið er hluti af áætlun ráðuneytanna vegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023.
Nichole Leigh Mosty hélt erindi um hvernig fullorðinsfræðsla er lykill að inngildingu innflytjenda en hún er sérfræðingur á sviði málefna innflytjenda og inngildingu. Hallur Jónasson og Sigurður Norðfjörð frá Sahara héldu erindi um stafræna miðla: Þróun og bestun í nútíma auglýsingaheimi.
Þá fóru fram tvær vinnustofur sem gestir fundarins skiptu sér í. Önnur fjallaði um þróunarverkefni tengd Evrópska tungumálarammanum sem SÍMEY hefur unnið í samstarfi við Studieskolen, Austurbrú og Mími. Fulltrúar frá SÍMEY vörpuðu ljósi á virði tungumálarammans og tækifæri sem felast í honum, þar á meðal hvað varðar samræmingu, nýja nálgun í kennslu og bætta þjónustu við innflytjendur. Hin vinnustofan fjallaði um markaðsmál. Fulltrúar frá MSS – Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sögðu frá verklagi hjá miðstöðinni hvað markaðsmál varðar. Auk þess fjallaði fulltrúi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða um Meta for business og hvernig miðstöðin nýtir sér það.
Við þökkum stjórn Símenntar og starfsfólki símenntunarmiðstöðvarinnar VISKU í Vestmannaeyjum fyrir góðan fund og skipulag í kringum hann.