Á vefsíðu European Center for Modern Languages (ECML) var nýlega birt frétt um öfluga vinnustofu um kennslu íslensku sem annars máls í atvinnulífinu sem haldin var fyrir íslenskukennara og verkefnastjóra Mímis í ágúst sl. Mikilvægi viðburðarins var ótvírætt í ljósi þess að hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi hefur vaxið til muna undanfarin ár og atvinnulífið treystir í auknum mæli á erlent starfsfólk.
Á vinnustofunni voru ræddar nýjungar í kennsluaðferðum og námsefnisgerð fyrir íslenskunám á vinnustöðum. Þátttakendur öðluðust betri skilning á því hvernig megi þróa íslenskunámskeið sem eru betur sniðin að þörfum starfsfólks og vinnustaða. Vinnustofan markaði því mikilvægt skref í bættri íslenskukennslu fyrir innflytjendur á Íslandi sem stuðlar að betri inngildingu þeirra á íslenskum vinnumarkaði.