Í síðustu viku komu fulltrúar FA og framkvæmdastjórar fræðslu- og símenntunarmiðstöðva saman til að ræða stöðu mála og þróun á vettvangi framhaldsfræðslunnar. Á fundinum voru einnig aðilar frá Samtökum atvinnulífsins og ASÍ með erindi um þróun á vinnumarkaði, mikilvægi símenntunar og vottunar á færni í starfi. Sérfræðingar FA fjölluðu um þróun Fagbréfs atvinnulífsins, fóru yfir stöðu námskráa og námsleiða FA og sérstaklega nýja námsleið, Færni á vinnumarkaði.
Framkvæmdastjórar fræðslu- og símenntunarstöðva fóru yfir nýtingu fjár og framkvæmd framhaldsfræðslunnar á hverri símenntunarstöð. Í lok fundarins kom Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra og átti samtal við hópinn ásamt Ragnhildi Bolladóttur, teymisstjóra framhaldsskólastigsins. Fundurinn var gagnlegur og varpaði ljósi á næstu skref sem þarf að taka til að auka enn frekar gæði og árangur í framhaldsfræðslunni.