Mímir er stoltur samstarfsaðili Vinnumálastofnunar um gerð fræðsluefnis í samfélagsfræðslu fyrir flóttamenn. Fræðsluefnið hlaut nafnið Landneminn og er hýst hjá Vinnumálastofnun en það verður kennt á námskeiðum sem verða hluti af samræmdri móttöku flóttafólks.
Um er að ræða 60 kennslustunda námskeið þar sem nemendur fá kennsluna á sínu móðurmáli en við hönnun efnisins var litið til margbreytileika málhópanna og það gefið út á sjö tungumálum en auk ritaðs efnis fylgir upplestur á því með á hverju móðurmáli fyrir sig.
Vinna við gerð fræðsluefnisins hefur staðið yfir í um tvö ár. Við gerð fræðsluefnisins var leitað til ýmissa hagaðila um yfirlestur og ábendingar enda er fræðsluefnið víðfeðmt og tekur á mörgum samfélagslegum þáttum.
Þá hélt Mímir á dögunum undirbúningsnámskeið fyrir kennara sem munu kenna samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk og innflytjendur á vegum Vinnumálastofnunar. Á námskeiðinu var farið yfir kennslufræði fyrir fræðsluefnið www.landneminn.is auk þess sem hagaðilar kynntu þarfir markhópsins út frá þörfum stofnana (Rauði krossinn á Íslandi, Alþýðusamband Íslands, Miðja máls og læsis og flóttamannateymi Reykjavíkurborgar). Mikil ánægja var með námskeiðið og mæltist það mjög vel fyrir. Annað kennslufræðinámskeið fer fram fljótlega hjá Mími í samstarfi við Vinnumálastofnun.