Um fimmtíu manns sóttu jólaboð Mímis sem haldið var í húsakynnum Mímis miðvikudaginn 17. desember. Meðal gesta voru kennarar og starfsfólk Mímis, auk matsaðila í raunfærnimati.

Í ávarpi sínu færði Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, viðstöddum bestu þakkir fyrir samstarfið á árinu sem er að líða – ári sem einkenndist af sköpunarkrafti, metnaði og umhyggju fyrir nemendum.

„Þið leikið lykilhlutverk í því mikilvæga verkefni að glæða vonir þeirra sem snúa til baka eftir langt hlé frá námi og allra þeirra sem hefja nýtt líf í nýjum menningarheimi, oft með erfiða lífsreynslu að baki.

Mímir er staðurinn þar sem fólk byrjar að fóta sig, öðlast sjálfstraust og finnur að það tilheyrir. Við búum í samfélagi þar sem umræður um menntamál snúast gjarnan um kostnað, tækninýjungar, kerfi eða jafnvel pólitík. En þegar við göngum inn í kennslustofu vitum við öll að menntun snýst fyrst og fremst um mannlegar tengingar – traust, metnað, gleði og vinalegt andrúmsloft sem býður fólk velkomið.

Það er þessi jólalegi andi, í sinni bestu mynd, sem þið mætið með í vinnuna og skapið þannig það hlýja og örugga umhverfi sem við finnum öll hér daglega,“ sagði Sólveig meðal annars.

Edda Björgvinsdóttir var sérstakur gestur og spjallaði við viðstadda um gleði og sorg – og ekki síst um jólin.

Mímir óskar öllum gleðilegra jóla og þakkar fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.

Myndir frá jólaboðinu má sjá hér - Jólaboð Mímis 2025