Joanna Dominiczak, fagstjóri íslenskunáms og erlends samstarfs hjá Mími-símenntun, hlaut sérstök hvatningarverðlaun á verðlaunahátíð Stjórnvísis sem fram fór á Grand hótel í Reykjavík mánudaginn 12. febrúar síðastliðinn.

Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi eru árlega veitt stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði, veitt eru verðlaun fyrir framúrskarandi stjórnun sem og hvatningarverðlaun en þau verðlaun voru afhent í fyrsta sinn í ár. Forseti Íslands afhenti verðlaun til sex einstaklinga við hátíðlega athöfn. Tilnefndir til verðlaunanna voru um 70 einstaklingar og er starfsfólk Mímis gríðarlega stolt af Joönnu og þeirri viðurkenningu sem hún hefur hlotið fyrir starf sitt.

Mímir hefur áralanga reynslu af íslenskukennslu fyrir þá sem hafa annað móðurmál en íslensku og hafa námskeið verið haldin með góðum árangri síðan árið 2003. Umfangsmikil endurskoðun hefur farið fram hjá Mími undanfarin ár á námi og kennslu í íslensku sem öðru máli í samvinnu við fjölmarga hagaðila. Í starfi sínu sem fagstjóri hefur Joanna ásamt samstarfsfólki sínu leitt fram breytingar sem miðast við að svara enn betur þörfum og væntingum nemenda og vinnustaða. Með þessu móti hefur námið tengst samfélaginu betur en áður fyrr en árangurinn mælist meðal annars í aukinni aðsókn í starfstengda íslenskukennslu hjá fyrirtækjum. Vitundarvakning hefur einnig orðið um mikilvægi íslenskukennslu varðandi inngildingu í samfélagið.

Teymið hjá Mími leggur mikla áherslu á nýsköpun og þróun bæði í námi og á námsefni til að tryggja árangursríkari íslenskukennslu og hefur fengið lof fyrir bæði frá nemendum sem og samstarfsaðilum. Teymið hefur farið fyrir því að sérsníða íslenskukennslu fyrir fyrirtæki sem hefur gert starfsmönnum auðveldara að tala íslensku á þeirra fagmáli og gert það að verkum að öll samskipti verða auðveldari.

Joanna fékk þá umsögn við afhendingu viðurkenningarinnar að hún sé drífandi, hugmyndarík, framsýn, hjálpsöm og umhyggjusöm og hefur starfað sem fagstjóri undanfarið ár af miklum metnaði. Í ræðu sinni er hún tók við hvatningarverðlaununum þakkaði hún samstarfsfólki sínu fyrir að vera til staðar fyrir sig, sem og hvatning til að verða betri leiðtogi á hverjum degi. Joanna kvaðst auðmjúk og afar þakklát fyrir hvatningarverðlaun Stjórnvísis.

Starfsfólk Mímis óskar Joönnu innilega til hamingju og hlökkum við til að halda áfram að vinna með henni og bæta íslenskunám fyrir fólk af erlendu bergi brotnu.