Mímir, í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið og stéttarfélagið Eflingu, býður fólki í atvinnuleit upp á fagnámskeið í umönnun í mars næstkomandi.  

Samstarfið hófst síðastliðið haust með fyrsta námskeiðinu sem haldið var við góðan orðstír en nýmæli eru að opna námskeið sem þessi fyrir fólk sem er án atvinnu en margir hafa misst vinnuna að undanförnu vegna COVID-19. Vonir eru bundnar við að fólk úr þeim hópi kunni að sjá í þessu tækifæri til að breyta um starfsvettvang.

Heilbrigðisráðuneytið styrkir verkefnið og sér Efling um að kynna námskeiðið fyrir félagsmönnum Eflingar sem eru í atvinnuleit. Hlutverk Mímis er að sjá um skipulag og framkvæmd fagnámskeiðsins en Mímir hefur langa reynslu af skipulagi og framkvæmd fagnámskeiða fyrir starfsfólk í félags- og heilbrigðisþjónustu í samstarfi við Eflingu stéttarfélag.   

Fagnámskeiðið hefst 1.mars og fer skráning fram í gegnum Eflingu stéttarfélag.