Mímir – símenntun fékk góða gesti í heimsókn miðvikudaginn 9. mars sl. Starfsmennt – fræðslusetur og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins eru þátttakendur í evrópska samstarfsverkefninu Com(m)-online: Creating, guiding and coaching.Verkefnið hefur það markmið að styðja við stafræna færni og kennslufræðilega þekkingu þeirra sem vinna að fullorðinsfræðslu. Það voru þær Kristín Erla, Joanna og Sigríður Droplaug sem tóku á móti gestunum, fyrir hönd Mímis. „Þau óskuðu eftir því að fá að koma í heimsókn hingað í Mími til að kynna sér það sem við erum að gera hér innandyra á sviði stafrænnar kennslu. Það var afskaplega áhugavert að fá að kynnast sjónarmiðum frá ólíkum löndum og bera saman við það sem við erum að gera hér og fyrir þau að sjá hvað við erum að gera vel og nýta það hjá sér. Hluti af verkefninu er að hópurinn skilar svo af sér endurgjöf til Starfsmenntar og Fræðslumiðstöðvarinnar með þau atriði sem þeim finnst vera vel gert og það sem betur mætti fara og þannig fáum við sem sinnum fullorðinsfræðslunni tækifæri til að efla þjónustu okkar enn frekar,“ segir Sigríður Droplaug Jónsdóttir, sviðsstjóri fræðslu og þróunar hjá Mími.

Samstarf ólíkra aðila mikilvægt

Fjarkennsla, vefkennsla og vendikennsla kalla á breytta aðferðafræði sem er nauðsynlegt að þekkja og eins og kórónaveiran hefur kennt okkur er nauðsynlegt fyrir kennara og leiðbeinendur í fullorðinsfræðslu að vera vel tæknifærir og skilja hvaða kennslufræði og aðferðafræði miðlunar hentar efni og aðstæðum hverju sinni. „Þetta er breytt landslag frá því sem við þekkjum og framfarir í tækni og tækniþekkingu fleygir fram. Við sem stöndum að fullorðinsfræðslu þurfum vissulega að vera á tánum í þessu sem öðru og því hressandi að fá tækifæri til þess að taka á móti erlendum gestum og bera saman bækur okkar,“ segir Sigríður að lokum.