Við hjá Mími vorum svo heppin að fá gesti frá Girona á Spáni í byrjun mars. Þetta voru sex spænskumælandi nemendur, sem eru að læra ensku, ásamt tveimur kennurum sem starfa við fullorðinsfræðslustöð í CFA Girona. Þau héldu kynningu um sjálfbærni sem fjallaði sérstaklega um mikilvægi þess að rækta Miðjarðarhafsfæði í matjurtagörðum í borgum.
Á meðan á dvöl þeirra stóð heimsótti hópurinn Miðstöð menntunar og skólaþjónustu þar sem þau fengu stutta kynningu á starfi Brúarsmiðju en einnig fóru þau í Hellisheiðarvirkjun þar sem þeim var kynnt nýting jarðvarma í Reykjavík. Í heimsókn á Borgarbókasafnið í Árbæ kynntu þau niðurstöður rannsókna sinna og fengu kynningu á starfsemi bókasafnins og undruðust það fjölbreytta og fjölmenningarlega starf og efni sem þar er að finna. Þau tóku að auki þátt í tveimur enskutímum hjá Mími og fengu tækifæri til að kynna og deila hugmyndum sínum með nemendum okkar og kennurum.
Við vonum að þau hafi snúið heim með þekkingu og ævintýri sem Ísland gat boðið upp á og komi fljótlega aftur í heimsókn.


