Farsælt ár þrátt fyrir faraldur

„Á heildina litið var árið 2020 farsælt í starfsemi Mímis. Nemendastundum fjölgaði á milli ára þrátt fyrir þá gríðarlega óvissu sem ríkti um rekstur og starfsemi Mímis vegna heimsfaraldurs kórónaveiru",  segir Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis í ársskýrslu félagsins 2020 sem hún kynnti á aðalfundi félagsins sem haldinn var með rafrænum hætti föstudaginn 28. maí síðast liðinn.

„Ég er stolt af því hvernig starfsfólk, kennarar og nemendur í Mími tókust á við ný verkefni af yfirvegun, voru úrræðagóðir og ekki síst skynsamir", segir Sólveig Hildur en skólahald í Mími tók breytingum á árinu í takti við þær sóttvarnarreglur sem yfirvöld boðuðu hverju sinni auk þess sem allt kapp var lagt á fjarkennslu og rafræna ráðgjöf. Hin tæknilega framtíð varð því allt í einu í nútíð, kannski mun fyrr en reiknað hafði verið með.