Hlýleiki er mest lýsandi fyrir þá stemningu sem myndaðist þegar kennarar, matsaðilar og starfsfólk Mímis kom saman síðast liðið föstudagskvöld í nýju nemendarými á jólagleði Mímis. Í því tilefni var nemendarýmið formlega vígt en það var endurhannað fyrr á árinu með það að markmiði að búa nemendum þægilegt og hvetjandi námsumhverfi sem eftirsóknarvert er að dvelja í.

Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, gerði vægi virðingar og kærleika að umtalsefni í ávarpi sínu og minnti meðal annars á hverjar hinar raunverulegu gjafir væru. Sannur jólaandi feli fyrst og fremst í sér kærleika, hjálpsemi og falleg orð til okkar sjálfs og annarra.

Geir Sigurður Gíslason, fyrrum nemandi Mímis, sagði frá upplifun sinni af Mími og varð tíðrætt um þá miklu hvatningu og þolinmæði sem kennarar sýndu honum og samnemendum hans. 

Valur Gunnarsson talaði einnig til gesta en hann hefur kennt tölvu og upplýsingatækni hjá Mími í tæp átta ár. Valur er vinsæll kennari og líkti upplifun sinni af kennslu hjá Mími við að tilheyra stórri fjölskyldu. 

Kolbrún Eva Viktorsdóttir, sem einnig er fyrrum nemandi Mímis, flutti nokkur jólalög við undirleik bróður síns, Sindra Viktorssonar. 

Starfsfólk Mímis þakkar bæði kennurum, matsaðilum, fyrrum og núverandi nemendum samstarfið á árinu og undanfarin ár. Við erum svo sannarlega stolt af okkar fólki.