Stella Guðrún Arnardóttir er ein af þeim sem hafa lokið námi í Menntastoðum. Við ákváðum að spjalla við hana og sjá hvernig henni fannst námið og umgjörðin í kringum nemendur. Stella talar um að það hafi verið sér áskorun að þora að sækja um en það hafi komið henni skemmtilega á óvart hve vel henni gekk að læra og ná tökum á námsefninu.
Námið hentaði mér rosalega vel
Var erfið ákvörðun að hefja nám að nýju? „Mér fannst mjög erfitt að taka þessa ákvörðun þar sem ég hafði ekki verið í skóla í mörg ár. Einnig hafði ég verið að glíma við mikið ADHD sem lét mig halda að ég gæti ekki lært svo að hver væri þá tilgangurinn með því að reyna? Ég hafði aldrei vitað hvað ég vildi starfa við og var hálf stefnulaus.“
Þetta er í takt við það sem margir nemendur sem koma í Menntastoðir segja. Námið er öðruvísi sett upp en í hefðbundnum framhaldsskóla. Við spyrjum Stellu því næst hvað það hafi verið sem helst kom á óvart eftir að hún hóf nám. „Ég bjóst við að námið yrði mér erfitt og var hrædd um að ég myndi ekki tengjast hinum sem væru á sömu braut. En rétt áður en námið byrjaði hafði ég strax tengst einum námsráðgjafanum í Mími sem var mikill stuðningur fyrir mig allt námið. Ég var ekki eins hrædd að mæta. Þessi tegund af námi hentaði mér rosalega vel, miklu betur en ég bjóst við. Ég náði strax góðum takti og skipulagi. Þar sem það er bekkjarkerfi þá myndaðist strax góður vinahópur sem hvatti hvert annað áfram, fyrir mig skiptir það gríðarlega miklu máli að það sé gott og gaman að koma í skólann þá verður allt svo miklu auðveldara. Ef ég missti úr vegna óviðráðanlegra aðstæðna komu kennarar til móts við mig, námsráðgjafi leitaði allra leiða til að styrkja mig og hjálpa mér að komast yfir allt sem þurfti. Ég fékk mikla trú á sjálfan mig, sjálfsvirðingin varð meiri og stoltið jókst.“
Stefnir í hagfræði eftir háskólagrunninn
Eftir að hafa lokið námi í Menntastoðum hafa nemendur aukið sjálfstraust sitt til þess að átta sig á því að þeir geta stefnt þangað sem hugurinn girnist. Hvert lágu leiðir þínar eftir Menntastoðir? „Ég fékk stefnu í Mími. Komst að því að ég er góð með tölur og samskipti. Við fengum góðar upplýsingar um skóla sem stæðu til boða og einnig að fara og skoða þá. Ég ákvað að fara í Háskólann í Reykjavík vegna þess að þar er mjög góð persónuleg kennsla, hef aðgang að öllum kennurum alltaf og svo er þessi skóli beintengdur við atvinnumarkaðinn. Ég er í háskólagrunninum í viðskipta- og lögfræðigrunni og stefni svo í hagfræði. Mér finnst ég hafa forskot á aðra nemendur komandi úr Mími. Ég fékk mjög góðan grunn sem nýtist mér svakalega vel í náminu sem ég er í núna. Margir aðrir sem byrja beint í háskólanum ströggla. Ég er þakklát fyrir að hafa valið að fara í Mími og að þessar frábæru dyr voru opnaðar fyrir mig,“ segir Stella Guðrún og brosir.
Besta ákvörðun sem ég hef tekið var að byrja í Mími
Þegar Stella Guðrún er spurð um hvað standi upp úr í náminu hjá Mími stendur ekki á svörum: „Ef þú leitar þér hjálpar og stuðnings í Mími þá færðu alla þá hjálp sem þú þarft til að læra á skilvirkan hátt og komast í gegnum námið. Ég fann fyrir því hvað starfsfólki þótti vænt um mig og vildi svo mikið að mér myndi ganga vel. Það eitt og sér finnst mér ómetanlegt því að það er mikill ótti og óöryggi sem fylgir því að taka þetta stóra skref og fara í skóla eftir svona langan tíma. Það er ótrúlega góður andi inni í skólanum og góðir kennarar.“
Hvað myndir þú segja við þau sem eru óörugg með að sækja sér nám í Menntastoðum? „Mig langar til að segja við alla sem eru í þeirri stöðu sem ég var í áður en ég byrjaði sem eru hrædd, óörugg og með litla trú á sjálfum sér að þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið að byrja í Mími. Ég lærði að læra, ég lærði að skipuleggja mig. Ég fékk að heyra að ég gæti þetta og væri að standa mig vel. Svo allt í einu fór ég að trúa því sjálf og sjá að ég gæti gert allt sem mig dreymir um. Ekki láta neitt stoppa þig, alveg sama hvað það er. Þú getur gert allt sem þú vilt og finnur ekki betri stað sem stökkpall fyrir það sem síðan kemur. Haltu í jákvæðnina, hún er lykilinn að þessu öllu saman. Eina leiðin þaðan er áfram og upp á við,“ segir Stella Guðrún að lokum.