Mímir stóð nýverið fyrir vinnusmiðjunni DISCOVER & EMPOWER, sem ætluð var ungu fólki í atvinnuleit. Markmið vinnusmiðjunnar var að styrkja sjálfsvitund og sjálfstraust þátttakenda, hjálpa þeim að greina eigin styrkleika og áhugasvið og byggja upp trú á eigin getu til að takast á við næstu skref í lífi og starfi.

Vinnusmiðjan fór fram dagana 13.–15. október í húsnæði Mímis við Höfðabakka 9. Kennt var í litlum hópi þar sem allir fengu persónulega leiðsögn sérfræðinga Mímis.

Leiðbeinendur voru Kristín Erla Þráinsdóttir fagstjóri náms- og starfsráðgjafar hjá Mími og Þórunn Grétarsdóttir, fagstjóri námsbrauta og þróunar hjá Mími. Báðar hafa víðtæka reynslu af ráðgjöf, kennslu og þróun námskeiða með sérstakri áherslu á að efla fólk í atvinnuleit og styrkja það til framtíðar.

Í gegnum fjölbreytt verkefni og æfingar fengu þátttakendur tækifæri til að skoða gildi sín, styrkleika og færniþætti, vinna með markmiðasetningu og tengslanet og þróa virkniviðhorf gagnvart atvinnuleit. Lögð var áhersla á lausnaleit og að takast á við hindranir á raunhæfan hátt. Þá unnu þátttakendur að því að skerpa á ferilskrá sinni og kynningarbréfi með það að markmiði að auka möguleika sína á vinnumarkaði.

Þátttakendum stóð einnig til boða einstaklingsviðtal við náms- og starfsráðgjafa hjá Mími, bæði fyrir og eftir vinnusmiðjuna, til að dýpka vinnuna og styðja við markmið sín.