Nítján nemendur úr Menntastoðum í fjarnámi útskrifuðust þann 10. júní sl. Hópurinn hóf nám haustið 2020 og voru alfarið í fjarnámi. Námið var sett upp í 5 lotum þannig að nemendur tóku tvö fög í einu ásamt námstækni samhliða. Fyrirkomulagið hugnaðist nemendum vel og gekk þeim vel að aðlagast skipulaginu. Inga Rósa Harðardóttir flutti ávarp fyrir hönd nemenda en hún hóf nám í Menntastoðum eftir að hafa tekið sér 27 ára hlé frá námi. Slík ákvörðun krefst hugrekkis en Inga Rósa lýsti mikilli ánægju með gott og hnitmiðað skipulag. Sagði hún kennarana til fyrirmyndar og héldu henni á tánum allan tímann svo hún dróst ekki aftur úr. Við óskum Ingu Rósu og öllum nemendum hjartanlega til hamingju með útskriftina og flottan árangur.