Í dag er dagur íslenskrar tungu, dagur sem minnir okkur á mikilvægi þess að varðveita og þróa íslenskt mál. Við notum tækifærið til að fagna ekki aðeins íslenskunni sjálfri heldur einnig fjölbreytileikanum sem eflir hana, þar á meðal íslensku sem öðru máli. Um 20% íbúa Íslands tala íslensku sem annað mál og sú fjölbreytni er mikilvægur hluti af samfélaginu okkar.

Við erum stolt af því að hafa í rúm 20 ár boðið upp á íslenskunámskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki, með það að markmiði að stuðla að inngildingu, samfélagsþátttöku og valdeflingu þeirra sem vilja tileinka sér íslenskuna. Við trúum því að tungumálið sé lykillinn að samfélagslegri samstöðu og jöfnum tækifærum.

Íslenskukennararnir okkar eru sérfræðingar í tungumálum og tala samanlagt um 30 tungumál auk íslensku. Þessi sérstaða okkar gerir okkur kleift að mæta þörfum fjölbreytts hóps nemenda sem eru um 2000 á hverju ári. Nemendurnir okkar koma úr öllum heimshornum og læra íslensku fyrir vinnu, nám og daglegt líf. Þannig verða þeir virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Við viljum nota daginn í dag til að þakka öllum sem hafa lagt sitt af mörkum við að efla íslenska tungu og íslenskukennslu, bæði sem móðurmál og sem annað mál.

Við viljum einnig þakka öllum sem tóku þátt í keppninni okkar „Þetta er íslenskan mín/That´s my Icelandic!“ sem fór fram í tilefni af degi íslenskrar tungu. Keppnin snerist um að deila stuttu myndbandi þar sem þátttakendur töluðu íslensku með sínum einstöku sérkennum og sögðu frá því hvernig íslenskan þeirra væri.

Við höfum fengið ótrúlega fjölbreytt og falleg myndbönd sem sýna hversu ríkulegt tungumálið okkar er og hvernig fjölbreytileiki þess auðgar samfélagið okkar. Við erum hjartanlega þakklát fyrir allan þann metnað og sköpunargleði sem þátttakendur lögðu í verkefnið.

Nú er keppninni formlega lokið og munum við tilkynna sigurvegarann í næstu viku. Sigurvegarinn hlýtur ókeypis íslenskunámskeið að eigin vali hjá Mími.


Takk fyrir að láta rödd ykkar heyrast og taka þátt í að fagna íslenskunni í allri sinni dýrð!