Dagur íslenskrar tungu stendur starfsfólki Mímis nærri enda er tungumálið þungamiðja í starfsemi Mímis. „Í dag er vissulega tilefni til þess að fagna en jafnframt líta yfir farinn veg. Við höfum komið að íslenskukennslu í tuttugu ár hér hjá Mími en okkar markhópur hefur í gegn um tíðina verið fólk sem hefur íslenskuna sem annað tungumál,“ segir Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri Mímis og bendir á að lykillinn að íslensku samfélagi felist oftar en ekki í að ná tökum á tungumálinu.

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í tuttugasta og sjöunda sinn í dag. Dagurinn er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar og hefur fest sig í sessi sem sérstakur hátíðisdagur og minnir fólk á mikilvægi íslenskra tungu.

„Virðing þjóðar fyrir tungumáli sínu og rækt hennar við málið hlýtur að skipta sköpum í varðveislu málsins,“ segir Sólveig Hildur. „Við þurfum sífellt að gæta að íslenskunni og gefa þeim sem eru að læra hana tækifæri á því að nota málið. Það skiptir miklu máli að við gerum þeim sem vilja læra íslensku kleift að æfa sig og fá hvatningu til þess, segir Sólveig Hildur að lokum.“