Covid-smit hefur verið staðfest hjá nemanda á kennslustöð Mímis að Öldugötu 23. Gripið hefur verið til allra nauðsynlegra ráðstafana í samstarfi við smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis til að hindra útbreiðslu smitsins og gæta þannig fyllsta öryggis starfsfólks og nemenda. Smitrakningarteymið er að hafa samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví. Kennsluhúsnæðið að Öldugötu hefur verið sótthreinsað rækilega. Þá hefur áhersla verið lögð á að þeir sem hafa komið í húsnæði okkar á Öldugötu mæti ekki í aðalbyggingu Mímis að Höfðabakka 9 fyrr en að lokinni skimunarsóttkví.

Við erum að vonum vonsvikin með að þessi staða sé komin upp þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á sóttvarnir í kennsluhúsnæði Mímis, bæði að Öldugötu og Höfðabakka, og við höfum skynjað mikla samstöðu meðal nemenda og starfsfólks að vinna sigur á þessum faraldri. Við höfum starfað náið með smitrakningarteyminu að því að reyna að ná utan um þetta. Við erum heppin að hafa náð að bregðast skjótt og örugglega við þessum aðstæðum enda er um lítið kennsluhúsnæði að ræða í þessu tilviki.

Við vonum auðvitað það besta og að smitrakningarteyminu takist að ná utan um þetta. Þá viljum við þakka þeim nemendum og kennurum sem við höfum rætt við í dag vegna þessa fyrir jákvæðni og samstarfsvilja. 

Við höldum þó ótrauð áfram og minnum áfram á að gæta fyllsta hreinlætis, halda að minnsta kosti eins metra lágmarksbili á milli okkar og að halda okkur heima í öllum tilvikum ef við finnum fyrir minnstu einkennum. Þá minnum við á grímuskyldu í öllum almennum rýmum og þar sem ekki er hægt að halda fjarlægðarmörkum. 

Í ljósi stöðunnar er eðlilegt að nemendur og starfsfólk kunni að hafa spurningar og í þeim tilvikum er hvatt til að hafa samband við Anneyju Þórunni Þorvaldsdóttur, aðstoðarmann framkvæmdastjóra og öryggisfulltrúa skólans (anney@mimir.is). 

Með kærri kveðju,

Sólveig Hildur Björnsdóttir

Framkvæmdastjóri Mímis