BYKO, í samstarfi við Mími - símenntun og Verzlunarskóla Íslands taka höndum saman um að veita starfsfólki tækifæri á að fara í fagnám i verslun og þjónustu. Í kynningu sem haldin var fyrir starfsfólk BYKO á dögunum kom fram að námið sé sérsniðið að starfandi verslunarfólki. Námið er svar við hröðum breytingum á vinnumarkaði sem kallar á aukna menntun, þjálfun og þekkingu innan starfsgreinarinnar. Námið er 90 einingar og er blanda af fjar- og vinnustaðanámi innan fyrirtækisins.
Raunfærnimat nýtt til að meta hæfni
Starfsfólk BYKO hefur margt langa reynslu sem unnt er að meta til eininga með raunfærnimati hjá Mími - símenntun. Þannig fá einstaklingar sem hafa starfsreynslu hana metna til eininga og þar með styttingu á námi sínu.
Á myndinni að ofan eru þær Kristín Erla Þráinsdóttir, náms- og starfsráðgjafi hjá Mími og Rebekka Ásmundsdóttir, sérfræðingur á mannauðssviði BYKO.