Kæru kennarar, nemendur, samstarfsaðilar og vinir Mímis

Nú þegar hátíðirnar nálgast vil ég færa ykkur öllum innilegustu þakkir fyrir samstarfið og samveruna á árinu sem er að líða. Hjá Mími-símenntun mætist fólk með ólíkan bakgrunn, reynslu og drauma sem engu að síður á sér það sameiginlega markmið að vaxa, læra og styrkjast. Það eru sannarlega forréttindi að fá að vera hluti af slíku samfélagi.

Starfsfólk og kennarar Mímis mæta til vinnu á hverjum degi staðráðnir í að leggja metnað og umhyggju í störf sín og skapa þannig vinalegt umhverfi. Umhverfi þar sem nemendur hafa tækifæri til að hefja nýja kafla í lífi sínu, hvort sem það er eftir langt námshlé, í nýju landi eða á nýjum vettvangi. Áhrifin af fagmennsku starfsfólksins okkar eru dýrmæt og ná langt út fyrir kennslustofuna.

Ég vil jafnframt þakka nemendum okkar fyrir traustið, dugnaðinn og kjarkinn sem þarf til að stíga skrefið og leggja af stað í það ferðalag sem nám er. Þið eruð okkur öllum áminning um að það er aldrei of seint að læra, þróast og finna sína rödd.

Um leið og við höldum inn í hátíðarnar vil ég hvetja öll til að hægja á, njóta samveru, hlæja, hvílast og næra tengslin við fólkið sem stendur ykkur næst. Jólin eru ekki verkefni til úrlausnar heldur stund til að njóta; tími hlýju, samveru, vonar og endurnýjunar.

Fyrir hönd Mímis-símenntunar óska ég ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.

Hlýjar hátíðarkveðjur,


Sólveig Hildur Björnsdóttir
Framkvæmdastjóri Mímis-símenntunar