Samstarfshópur um heildarendurskoðun framhaldsfræðslu hóf störf síðast liðinn mánudag þegar fyrsti fundur hópsins fór fram. Sólveig Hildur Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mímis, tekur þátt í samstarfshópnum fyrir hönd Símenntar – samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ræddi við fundargesti og óskaði þeim velfarnaðar í störfum sínum. Hlutverk hópsins miðar að því að greina stöðuna í málaflokknum með gerð grænbókar. Í kjölfarið verður gerð tillaga í formi hvítbókar að heildstæðu kerfi framhaldsfræðslunnar sem styrkir hana sem fimmtu stoð opinbera menntakerfisins hér á landi. Þá er hópnum ætlað að veita ráðgjöf við gerð frumvarps til nýrra laga um framhaldsfræðslu. Í vinnunni sem fram undan er verður sérstaklega rýnt í íslenskukennslu sem fram fer utan formlega skólakerfisins og er miðuð að fullorðnu fólki með annað móðurmál en íslensku, enda tungumálið lykillinn að inngildingu í samfélagið. Áhersla verður sömuleiðis lögð á að rýna framhaldsfræðsluna með tilliti til fatlaðs fólks.