Við vinnum með íslensku

Leiðir að öflugu lærdómssamfélagi fyrir íslenskunám innflytjenda.

 

Alþýðusamband Íslands og Mímir-símenntun standa fyrir ráðstefnu með yfirskriftinni Við vinnum með íslensku.

Ráðstefnan fer fram fimmtudaginn, 29. febrúar 2024, kl. 09:00-15:00, á Hótel Hilton Nordica.

Eftir því sem þátttaka innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði eykst verður þörfin á markvissri íslenskukennslu sífellt meiri. Á ráðstefnunni verður einblínt á helstu áskoranir samfélagsins þegar kemur að inngildingu innflytjenda og því að kenna/læra nýtt tungumál í nýju landi. Horft verður til samstarfs hins opinbera, aðila vinnumarkaðar, fræðsluaðila, innflytjenda og fleiri þátta sem geta haft áhrif á árangur. Þá verður horft til reynslu annarra landa sem staðið hafa frammi fyrir svipuðum áskorunum.

Sérfræðingar frá OECD segja frá áskorunum og fyrirmyndarlausnum í inngildingu og tungumálaþjálfun fullorðinna innflytjenda, Matilde Grünhage-Monetti, sérfræðingur Language for Work netsins hjá Miðstöð evrópskra tungumála í Graz, segir frá reynslu Þýskalands af starfstengdu tungumálanámi fullorðinna innflytjenda. 

Sérfræðingur frá Háskóla Íslands rýnir í tilgang þess fyrir samfélagið að læra og kenna íslensku sem annað mál. Þá mun sérfræðingur frá Mími-símenntun segja frá reynslu Mímis hvað varðar nýjungar og hindranir í íslenskukennslu og fyrrum nemandi segja frá sinni reynslu af íslenskunámi. Einnig mun sérfræðingur frá Vörðu segja frá niðurstöðum könnunar hvað varðar stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði.

Að auki verða þematengdar vinnustofur sem Háskóli Íslands, Matilde Grünhage -Monetti og Ísbrú - félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál, munu stýra. 

Ráðstefnustjóri er Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs.

Nauðsynlegt er að skrá sig til leiks fyrir 27. febrúar.

Ráðstefnugjald: kr. 12900. Innifalið í ráðstefnugjaldi: kaffiveitingar og hádegisverður.

Fyrirtæki sem vilja skrá og greiða fyrir starfsfólk sitt vinsamlega sendið póst á mimir@mimir.is

Ef óskað er eftir túlkun á/úr ensku vinsamlegast hafið samband við mimir@mimir.is og við reynum að koma til móts við það.

Var efnið á síðunni hjálplegt?