Um þessar mundir er Marina Mendonca að kenna Samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk hjá Mími. Að þessu sinni eru nemendurnir spænskumælandi. Hópurinn er að langmestu leyti frá Venesúela en aldur þátttakenda er afar fjölbreytilegur allt frá 25 ára til rúmlega 60 ára. Það er alltaf áhugavert að hitta fólk frá hinum ýmsu löndum, taka spjallið og heyra hvernig námskeiðið er að nýtast þeim og hvað þau taka með sér úr náminu. Það sem allir nefna strax er að námskeiðið hjálpi þeim að aðlagast íslensku samfélagi og átta sig á réttindum sínum og skyldum.

Þá kom einnig fram, að vegna menningarmunar, væri ákaflega mikilvægt að gera sér grein fyrir hvað þyki rétt og rangt hér á landi því sinn er siðurinn í hverju landi. Í kjölfarið tók ung kona til máls og vakti athygli á því að allt frá því að hún var lítið barn hefur ástandið verið afar erfitt og á köflum hræðilegt í Venesúela. Það sé því gott að koma inn í samfélag þar sem hlutirnir eru í lagi og framkvæmdir „rétt“. Að sjá að það séu til aðrar leiðir að byggja upp gott samfélag. Það gefi henni færi á, í framtíðinni, að jafnvel fara heim að nýju með nýja sýn í farteskinu. Hún segist ræða við fjölskyldu sína um ýmislegt í námsefninu t.d. uppeldi og hvernig við gerum það hér, sem sé á stundum afar ólíkt því sem þekkist þar, en skili góðum árangri engu að síður.

Sá næsti sem tók til máls, talsvert eldri maður, sagði að hluti af því námsefni sem verið væri að fara yfir ætti ekki við alla, en engu að síður gæfi það ákveðna heildarmynd af samfélaginu. Það hjálpaði til við þá ákvörðun hvort að hér yrði hann til frambúðar eða sæi fyrir sér að færa sig um set. Það sé vissulega stór ákvörðun fyrir einstakling að velja sér nýtt land til að búa í vegna ástandsins heimafyrir. Þá kom enn önnur inn á það að með þessu væri auðveldara að fá aðgengi inn á vinnumarkað. Hvernig hann virkar, en það er ólíkt því sem þekkist í hennar heimalandi. Flest voru þau á því að námið væri yfirgripsmikið og fjölbreytt. Tæki á siðum, venjum og sögu ekki síður en praktískum atriðum sem nauðsynlegt væri að vita. Að lokum komum við inn á þá umræðu að sumt gætum við Íslendingar lært af öðrum þjóðum og það væri margt í þeirra menningu sem myndi nýtast okkur til þess að gera samfélagið okkar enn betra. Þar erum við sammála og látum þau orð verða okkar lokaorð.